SAGA HÓTEL BÚÐA

 

 

17 öld - búðir sem verzlunarstaður

Saga Búða er löng og hefst talsvert áður en hótelstarfsemi byrjar. Frá því á 17. öld voru Búðir verslunar- og útgerðarstaður. Við Búðaós var landtökustaður skipa allt frá landnámi og síðar reistu menn þar býli sín. Búðir léku þannig stórt hlutverk í lífi fólks fyrr á öldum áður.  

Mynd: Frederick W. W. Howell, frá Búðum í lok 19. aldar. 
    

 

 

átthagafélag snæfelssness

Árið 1945 lagði áttahagafélag Snæfellsness og Hnappadals fram drög að því að hefja rekstur hótels á Búðum. Félagið hafði um hríð leitað að hentugum stað á Snæfellsnesi til að byggja sumarhús fyrir félaga sína og varð Búðahraun fyrir valinu. Það lagði einnig til að Búðahraun yrði verndað ásamt því að félagið myndi sjá um að koma upp græðlingastöð. Í febrúar 1945 tóku hjólin hinsvegar að snúast fyrir alvöru þegar ríkið auglýsti sölu á gömlu íbúðarhúsi á Búðum sem átti að rífa. Í mars sama ár keypti félagið húsið fyrir 6.000 kr. og var strax ráðist í miklar og kostnaðarsamar endurbætur - vegur var lagður að húsinu og vatni var veitt inn auk þess sem olíuhitari var settur til að hita vatnið og húsið.
 

Gistiheimilið Búðir

Hótelið varð strax afar vinsælt og laðaði til sín stóran hóp af gestum. Á kvöldin voru spiluð lög af plötum á meðan gestir nutu matar og drykkjar á veitingastaðnum.

Sumarið 1948 tók hið nýja gistiheimili á móti fyrstu gestum sínum en hinsvegar er árið 1947 sagt vera upphafsár Hótels Búða þar sem skrifað var undir samkomulag um rekstur hótelsins. Átthagafélag Snæfellness og Hnappadals starfrækti hótelið fyrstu árin en þar sem viðhald hótelsins krafðist mikilla fjárútláta var gripið til þess ráðs að leigja út starfsemina. Frá 1951 til 1954 komu ýmsir aðilar að rekstri hótelsins og virtist þetta fyrirkomulag henta öllum aðilum vel. 

Hótelið varð strax afar vinsælt og laðaði til sín stóran hóp af gestum. Á kvöldin voru spiluð lög af plötum á meðan gestir nutu matar og drykkjar á veitingastaðnum. Búða samkomur voru líka sérstaklega vinsælir viðburðir en þeir voru óaðskiljanlegur hluti starfseminnar frá því áttahagafélagið hóf rekstur þess. Tilgangurinn var fyrst og fremst að vera brottflutnum Snæfellingum sem og þeim sem enn bjuggu í sveitinni vettvangur til að hittast fjarri amstri hversdagsins. Ákveðinn hátíðarbragur varð á þessum samkomum. Í fyrstu var til dæmis byggt dansgólf bak við hótelið sérstaklega fyrir þessa viðburði auk þess sem reynt var að gera þá enn eftirminnilegri með því að bjóða upp á skemmtiatriði. 

Þannig gerðist það árið 1953 að ungur ofurhugi að nafni Halldór Gunnarsson lét byggja risastóra tunnu og lá rampur inn í tunnuna sem lá frá botni hennar og upp að efstu brún. Þá var op neðst á tunnunni sem var jafnframt inngangur. Allt í kringum tunnuna voru bekkir fyrir áhorfendur og tröppur til að komast að þeim bekkjum þar sem þess þurfti. Halldór mætti svo á eina Búða samkomuna með tunnuna sína sem þurfti ekkert minna en tvo vörubíla til að flytja. Tunnuna lét hann setja upp fyrir framan hótelið og festi hana með öflugum vírum. Seldir voru aðgöngumiðar inn á áhorfendabekkina og þegar allir voru sestir hófst atriðið. Halldór kom akandi á mótorhjóli inn um op tunnunnar og ók upp allan rampinn þar til hann var á toppi tunnunnar við mikinn fögnuð áhorfenda. Bjarni Vigfússon frá Hlíðarholti var fjögurra ára gamall þegar hann varð vitni að þessum atburði og segist aldrei munu gleyma hversu mikið honum og öllum öðrum viðstöddum, jafnt ungum sem öldnum,  fannst þetta atriði Halldórs áhrifamikið og tilburðamikið.

 

Lóa á búðum

Photo of Lóa at the reception desk

Photo of Lóa at the reception desk

Árið 1956 var rekstarformi Hótels Búða breytt í hlutafélag og voru  Alexander McArthur og Friðsteinn Jónsson nýjir eigendur. Þar með lauk rekstir átthagafélagsins á Hótel Búðum og við rekstrinum tóku Friðsteinn  og eiginkona hans, Lóa Kristjánsdóttir. Þar sem þau höfðu áður átt og rekið veitingastað í Reykjavík varð þeim auðvelt að setja sig inn í rekstur hótelsins. Friðsteinn var í fullri vinnu í Reykjavík svo það varð úr að Lóa fór ein á Búðir til að sjá um reksturinn. 

Margir þekktir íslendingar dvöldu á Búðum meðan Lóa rakt hótelið, þar á meðal nóbelskáldið okkar Halldór Laxnes sem var tíður gestur og Jóhannes Kjarval vandi einnig komur sínar á Búðir.

Lóa rak Hótel Búðir í 15 ár og gerði það af miklum myndarskap enda blómstruðu Búðir undir hennar stjórn. Hún byrjaði á því að hætta með Búða samkomurnar og hætti jafnframt að selja áfengi. Hún vonaði að með þessum breytingum gætu Búðir orðið fjölskylduvænn staður og staður þar sem fólk gæti slakað á áhyggjulaust. Lóa varð fljótt þekkt fyrir einstaka gestrisni; hún tók á móti öllum gestum í eigin persónu og lét þeim líða eins og þeir væru heima hjá sér. Hún bauð upp á sælkeramat og lagði áherslu á að nota einungis ferskt og gott hráefni í matreiðsluna. 

Margir þekktir íslendingar dvöldu á Búðum meðan Lóa rakt hótelið, þar á meðal nóbelskáldið okkar Halldór Laxnes sem var tíður gestur og Jóhannes Kjarval vandi einnig komur sínar á Búðir. Meðan Lóa var við völd á Búðum var hótelið talið vera eitt hið besta á landinu og var ekki óalgengt að gestir dveldu allt upp undir viku í senn. Lóa auglýsti aldrei enda barst hróður hótelsins út um allt land með ummælum ánægðra gesta.

En tímarnir breytast og mennirnir með og því mátti skynja ákveðna breytingar í loftinu upp úr 1960. Ferðamynstur og lífstíll fólks tók breytingum þegar ferðalög erlendis urðu fleirum aðgengilegri. Gestir fóru einnig að dvelja skemur á hótelinu og þegar Friðsteinn, eiginmaður Lóu lést í bílslysi árið 1970 ákvað hún að hætta í hótelrekstri.

 

Blómabörnin koma á búðir


Næstu árin voru ýmsir aðilar viðriðnir reksturinn á Hótel Búðum með misgóðum árangri. Enginn virtist getað fetað í fótspor Lóu og árin 1978 - 1979 var starfseminni hætt um sinn og hótelið stóð autt þessi tvö ár. Sumarið 1979 hóf Gunnhildur Fenger, hússtýra að Lýsuhóli, þá umræðu að hefja þyrfti starfsemi á Búðum að ný en hún líkt og margir sveitungar hennar höfðu sterkar tilfinningar til staðarins. Það varð úr að hún ásamt eiginmanni sínum, Jakobi Fenger og Rúnari Marvinssyni kokki, leigðu rekstur hótelsins af Ásbirni Magnússyni sem var þáverandi eigandi hótelsins. Það  var þá í algjörri niðurnýslu þar sem húsinu hafði í engu verið sinnt og var opið fyrir veðri og vindum. Þau réðust í að koma hótelinu í starfhæft form; máluðu allt að utan og innan, gerðu upp húsgögn og unnu stórvirki við að opna á ný með dugnaði sínum. Takmarkið var að varðveita þann anda sem hótelið hafði yfir að ráða. Útsaumaðir dúkar voru settir á borðin og blóm og annar gróður úr nágrenninu var notaður til að prýða borð og hótelið. Þau opnuðu að nýju árið 1979 og fljótt barst út að hótelið væri opið og að tekist hefði að varðveita þann anda sem Búðir voru hvað þekktast fyrir. Í kjölfarið komu margir af fyrrverandi gestum Lóu á ný ásamt ört stækkandi hópi gesta sem voru að koma í fyrsta sinn. Á þessum tíma gekk stafsfólk hótelsins í ýmis störf; þannig fór Rúnar Marvinsson líka til sjós á meðan Jakob Fenger vann einnig að viðhaldi hótelsins.
 

orð spyrst út um veitingastaðinn

Rúnar lagði mikla áherslu á ferska ávexti, nýveiddan fisk, kjöt beint frá býli og heimaræktað grænmeti. Það var einnig mikið og gott úrval vína og fyrir vikið varð veitingastaður hótelsins þekkt fyrir heimsborgarabrag í bæði matargerð og þjónustu.

Um þetta leyti hóf Rúnar að þróa nýja tegund fiskirétta sem sem urðu síðar gríðarlega vinsælir á veitingastað hótelsins. Þar ber kannski helst að nefna smjörsteiktar gellur, kryddmarineraðar fiskitungur og fylltan silung. Farnar voru nýjar og óþekktar leiðir í matargerð; þannig var hægt að panta fiskisúpu dagsins en það var alls óvíst hvað Rúnar myndi galdra upp úr pottinum. Sniglar voru líka á boðstólnum en í þá daga var það nýlunda að sjá slíkt á matseðlum veitingahúsa á Íslandi. Rúnar lagði mikla áherslu á ferska ávexti, nýveiddan fisk, kjöt beint frá býli og heimaræktað grænmeti. Það var einnig mikið og gott úrval vína og fyrir vikið varð veitingastaður hótelsins þekkt fyrir heimsborgarabrag í bæði matargerð og þjónustu. Bæði vín- og matseðillinn voru skreytt með teikningum og það var nýr matseðill í hverri viku. Þá var boðið upp á ölkelduvatn úr lindum í nágrenni hótelsins.

Hótelið blómstraði á þessum tíma og var söngvarinn Pálmi Gunnarsson á meðal reglulegra hótelgesta. Hann var ekki ósjaldan að skemmta gestum með söng sínum og undirleik um helgar. Sumarið 1981 drógu Jakob og Gunnhildur sig út úr rekstrinum og í janúar 1982 keyptu Rúnar Marvinsson og Sigríður Auðunsdóttir, Sigurður Vigfússon og Sigríður Gísladóttir, Eyjólfur Gunnarsson and Hildur Sveinbjarnardóttir, ásamt  Magnúsi Magnússyni og Guðbjörgu Jónsdóttur hótelið af Ásbirni Magnússyni.

Rúnar Marvinsson og eiginkona hans Sigrídur drógu sig út úr rekstrinu árið 1986 og opnuðu í kjölfarið veitingastaðinn Vid Tjörnina í miðbæ Reykjavíkur en Sigrídur Gísladóttir tók þá yfir reksturinn. Sumarið 1986 var hafist handa við að stækka hótelið og var hugmyndin að útbúa rými fyrir starfsmenn auk þess að stækka rými og aðstöðu veitingastaðarins. Þannig átti að bæta við eldhúsi, bakaríi, vörugeymslu, þvottaaðstöðu og þremur herbergjum með baðherbergi. Eftir þessar viðbætur var gamla eldhúsinu breytt í veitingasal sem tók 80 manns í sæti. Frumleiki og ferskur matur voru einkunnarorð hótelsins undir stjórn Sigríðar en hótelið var bæði vinsælt og þekkt fyrir einstakan matseðil og góða þjónustu. Sem fyrr var nýr matseðill í hverri viku með ákveðnu þema sem gestum féll í geð.
 

tímabil Viktors

Árið 1994 skipti hótelið aftur um hendur þegar Viktor Sveinsson og Ingvar Þórðarson keyptu það. Þeir gerðu upp og endurbættu gömlu bygginguna. Herbergin voru endurgerð að öllu leyti, ný rúm keypt, hótelið var málað að utan sem innan. Takmark hinna nýju eigenda var að halda í stíl og anda hótelsins að svo miklu leyti sem hægt var.

Hafþór Ólafsson, þekktur sem söngvari Súkkats, var ráðinn sem aðalkokkur Búða en hann hafði unnið þar í mörg ár með Sigríði. Þjónustan við ferðamenn var aukin; bryggja var byggð og boðið var upp á hvalaskoðunarferðir.

Viktor hóf að versla við bændur í nágrenninu ásamt því að rækta grísi sjálfur til að nota í grísaréttina sem voru taldir algjör sælkeramatur.

Hótelstjórinn Viktor lagði áherslu á að endurvekja ýmislegt sem einkenndi rekstur Lóu og þá einkum það að útbúa eins mikið og hægt var af mat á hótelinu sjálfu og að lofa bragðinu af matnum að njóta sín sem best. Viktor hóf að versla við bændur í nágrenninu ásamt því að rækta grísi sjálfur til að nota í grísaréttina sem voru taldir algjör sælkeramatur. Hann gerði jafnframt tilraunir með helgarflug til Búða og bauð upp á útsýnisflug á Snæfellsnesi. Flugið til Búða tók um 40 mínútur og að loknu útsýnisflugi var að auki boðið upp á ýmis konar afþreyingu eins og göngufeðrir, reiðtúra og sjóstangveiði.
Um helgar spilaði Súkkat við góðar undirtektir gesta auk þess sem fleiri tónlistarmenn komu að skemmta og að leita sér innblásturs. Til dæmis komu tveir meðlimir hljómsveitarinnar Ununar að Búðum vorið 1996 og skrifuðu þar fimm lög sem komu út á nýrri plötu þeirra skömmu síðar.

Bruninn á búðum

Kvöldið 21. febrúar 2001 varð hótelið eldi að bráð og brann til grunna. Þessi staður sem átti sérstakan stað í hug og hjarta margra íslendinga var gjöreyðilagður. Hótelið var mannlaust þetta örlagaríka kvöld og brann á tiltölulega stuttum tíma. Verið var að gera það upp og var m.a. verið að draga í nýtt rafmagn en Viktor ætlaði sér að gera upp hótelið á einkar glæsilegan hátt um þetta leyti. Þar með breyttust þau áform og þess í stað var nýtt hótel byggt frá grunni og opnaði veitingahlutinn árið 2002 og þann 14. júní 2003 hófst fullur rekstur hótelsins á ný.

 

Hótel Búdir ehf. nýjar áherslur - sömu gildi

Líkt og áður er Hótel Búðir rekið með það að leiðarljósi að gestir njóti alls hins besta sem Búðir hafa upp á bjóða og komi sem fyrst aftur í þetta einstaka og fallega umhverfi. Á Búðum njóta gestir okkar fyrsta flokks þjónustu, sælkeramatar og drykkja sem er upplifun út af fyrir sig. Þegar gestir okkar fara viljum við að þeir hafi upplifað einstaka dvöl umvafin stórbrotinni náttúru. Við vonumst til að sjá þig sem allra fyrst á Hótel Búðum.

Heimild: Handrit um sögu Hótel Búða og staðarins eftir Andrés Erlingsson.